Að byrja í leikskóla

Móttaka nýrra nemenda fer eftir aldri barna og hvort þau hafa áður verið í leikskóla eða eru að fara í fyrsta sinn að heiman.

Aðlögun er alltaf einstaklingsbundin og skipulögð í samstarfi foreldra og deildarstjóra. Foreldrar þurfa að ætla sér u.þ.b. vikutíma í aðlögun barnsins og ágætt er að gera ráð fyrir að heildaraðlögun barnanna geti tekið nokkrar vikur eða þar til barnið er orðið öruggt í leikskólanum. Fyrsta daginn kemur barnið í heimsókn með foreldrum sínum. Smám saman lengist svo viðvera barnsins og fjarvera foreldra. Mikil breyting er fyrir barnið að byrja í leikskóla og því leggjum við áherslu á að barnið fái nægan tíma til að aðlagast nýju umhverfi Kynnast starfsfólki og börnum og læra að vera í hópi, hlíta reglum o.fl.

Með alöguninni er lagður hornsteinn að góðu samstarfi foreldra og starfsfólks leikskólans. Það er mikilvægt að góð samvinna takist strax í byrjun leikskólagöngunar og að gagnkvæmur trúnaður og samvinna ríki, sem er forsenda þess að barninu líði vel. Daglegar upplýsingar um aðstæður barnsins heima og í leikskólanum eru nauðsynlegar því oft geta lítil atvik í lífi barnsins valdið breytingum á hegðun þess.

Markmið með góðu samstarfi við alla er varðar leikskólastarfið er að vinna vel saman að gera gott leikskólastarf og samskipti betri. Gott samstarf milli foreldra og leikskóla skilar sér í öruggu og jákvæðu barni, bæði í leikskólanum og heima. Þegar börn upplifa og skynja samvinnu og jákvæð samskipti milli skólans og foreldra gefur það þeim þau skilaboð að skólinn sé staður sem foreldrarnir meta og það gefur börnum jákvæða mynd af skólanum. Ef allir er koma að uppeldi og menntun barna vinna saman hefur það jákvæð áhrif á árangur nemandans. Börnum gengur almennt betur ef samvinna leikskóla og foreldra er góð og hegðunarvandamál gera síður vart við sig.

Daglegt líf í leikskólanum

Daglegt starf markast af föstum athöfnum sem miða að því að sinna líkamlegum og andlegum þörfum barnanna. Leikurinn er aðal náms og þroskaleið leikskólabarna og við leggju áherslu á að gefa honum tíma og rými í dagsskipulaginu. Lögð er áhersla á hlýju, öryggi, tillitsemi og virðingu í samskiptum barna á milli og á milli starfsfólks og barna.

Í Tjarnarási er lögð áhersla á að hafa deildir skipulagðar þannig að auðvelt sé að hafa allt í röð og reglu og í hæð barnanna. Börnin vinna mikið á mottum, þau ná sér í mottu til að afmarka vinnusvæði sitt og til að verða ekki fyrir truflun eða raska ró annarra. Þau velja sér síðan verkefni til að vinna með á mottunum. Þau ráða sjálf hve lengi þau eru með hvert verkefni, en verða að ganga frá eftir sig áður en þau ná sér í það næsta. Þannig eru þau örvuð til sjálfstæðis og að læra að hugsa um aðra og umhverfi sitt.

Hópastarf, er tvisvar í viku. Þá vinna börnin að skipulögðum verkefnum í aldursskiptum hópum.

Samverustundir, eru daglega. Þar eru ýmis málefni rædd, sungið, lesið, farið í leiki o.fl.

Lesstundir, eru a.m.k. einu sinni á dag. Þá er lesið fyrir litla getuskipta hópa.

Sameiginleg söngstund er á föstudagsmorgnum. Þá hittast allir í salnum og syngja saman. Í söngstundinni er einnig sungið fyrir afmælisbörn vikunnar.

Elstu börnin vinna saman í hópavinnu á hverjum degi. Markmiðið er að auka enn frekar fjölbreytni í verkefnum barnanna sem eru elst í leikskólanum. Áherslan er á að auka sjálfstæði í vinnubrögðum til að auðvelda færslu milli skólastiga. Við erum í samstarfi við Áslandsskóla og förum í heimsóknir þangað.

Útivera, er daglega. Börnin þurfa að vera búin til að geta farið út í hvaða veðri sem er.

Afmæli Þegar börnin eiga afmæli þá gerum við okkur glaðan dag. Barnið býr til kórónu, velur sér sérstakan borðbúnað og fær afmælisblöðru. Sungið er fyrir afmælisbarnið í samverunni og það gengur með hnattlíkan jafnmarga hringi og árin segja til um.

Hagnýtar upplýsingar

Foreldrafundir eru haldnir einu sinni á ári

Foreldraviðtöl eru einu sinni á ári. Foreldrum er að sjálfsögðu alltaf velkomið að óska eftir fundi við deildarstjóra eða leikskólastjóra.

Foreldrakaffi er í desember, einnig er feðrum og öfum boðið í morgunkaffi á bóndadaginn og mæðrum og ömmum í kringum konudaginn,

Sumarleyfi. Öllum börnum í leikskólanum er skylt að taka fjórar vikur samfellt í sumarfrí.

Veikindi. Veikindi ber að tilkynna til leikskólans og það er góð og gild regla að miða við að börn skuli vera hitalaus heima í einn til tvo daga eftir veikindi. Algengt er að börn sem hefja skólagöngu fái fjölmargar pestir fyrsta hálfa árið. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindum sínum heima og mæti aftur frískt í leikskólann svo það geti tekið þátt í allri daglegri starfsemi leikskólans úti sem inni.

Lyf. Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema í neyðartilfellum.

Komur og brottfarir. Nauðsynlegt er að láta starfsfólk vita þegar komið er með barn í leikskólann og að sama skapi þegar barn er sótt. Ef aðrir en foreldrar sækja barnið í leikskólann ber að láta starfsfólk vita. Aldurstaksmark þeirra sem sækja barn í leikskóla er tólf ára samkvæmt reglum frá Umboðsmanni barna.

Slys og óhöpp. Slys og óhöpp geta alltaf átt sér stað. Ef slíkt kemur fyrir munum við strax hafa samband við foreldra og farið er með barnið á slysadeild eða tannlæknis ef þörf krefur.

Barnavernd. Lögum samkvæmt ber okkur að tilkynna hvers konar vanrækslu eða misnotkun til Barnaverndarnefndar. Tilkynning okkar er alltaf undir nafni leikskólans.

SMT. Unnið er með SMT skólafærni í leikskólanum. SMT skólafærni gengur meðal annars út á að veita jákvæðri hegðun eftirtekt og umbun. Börnin safna sameiginlega umbunarmiðum sem við köllum geisla. Haldnar eru geislaveislur eftir að ákveðnum fjölda af geislum hefur verið náð. Geislaveislurnar eru fjölbreyttar en þá er t.d. poppað, dansiball í salnum, grímubúningadagur, strætóferð, bíódagur, o.fl. o.fl.

Blær. Blær er hluti af námsefni um vináttu sem unnið er með í Tjarnarási. Um er að ræða forvarnarverkefni gegn einelti fyrir börn á leikskólaaldri. Blær er flökkubangsi sem fer á milli heimila barnanna og kemur til baka með frásagnir af heimsókninni. Hugmyndin er að hvert og eitt barn fái tækifæri til að kynna hinum börnunum heimilis­lífið hjá sér. Börnin kynnast betur innbyrðis og því betur sem börnin þekkjast því nánar tengjast þau. Að fá Blæ bangsa heim til sín eykur tengsl heimila við Vináttu verkefnið og styrkir þar með grunngildi vináttu: umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki.


Foreldrafélag er starfrækt í leikskólanum en ekki er skylda að ganga í félagið. Foreldrafélagið stendur fyrir nokkrum uppákomum ár hvert eins og t.d. sveitaferð, leiksýningu, hestaheimsókn og sumarhátíð.

Skólanámskrá leikskólans má finna á heimasíðunni undir flipanum "um leikskólann" og síðan "námskrá" .Þar koma fram allar upplýsingar um starfið í skólanum.