Leikskólinn Tjarnarás er 4 deilda leikskóli sem rekinn er af Hafnarfjarðarbæ. Hann stendur við Kríuás 2 í Hafnarfirði. Tjarnarás er 655m2, leikrými er 275m2 Hann tók formlega til starfa 4. september 2001. Deildirnar eru 4 og heita, Kærleiksheimar,Glaðheimar, Ljósheimar og Stjörnuheimar.
Námskrá Tjarnaráss byggir á Aðalnámskrá leikskóla frá 2011, lögum um leikskóla nr. 90/2008 og reglugerðum fyrir leikskóla. Í námskránni er fjallað um þau gildi sem starf Tjarnaráss byggist á og þá hugmyndafræði sem tekið er mið af. Lögð er áhersla á grunnþætti menntunar sem fram koma í Aðalnámskrá, og samþætt og skapandi leikskólastarf.
https://www.hafnarfjordur.is/media/fraedsluthjonusta/SkolastefnaHf2009utgafa.pdf
http://tjarnaras.leikskolinn.is/Skolastarfid/Skolanamskra
Stefna Tjarnaráss er að búa börnunum öruggt og lýðræðislegt lærdómssamfélag þar sem siðgæðisvitund barna er efld og lagður er grunnur að því að þau verði sjálfstæðir, hugsandi, skapandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi. Litið er á leikinn (Dewey) sem mikilvægustu námsleið barnsins og hlutverk kennarans er að styðja við nám barnanna í gegnum leik og umhverfi. Sýn leikskólans á börn er að þau séu fróðleiksfús, forvitin og virk í eigin lífi. Það er leikskólans að skapa öruggt og lærdómsríkt samfélag þannig að þau fái notið sín. Við viljum að það sem einkenni starfið sé að barnið sjálft sé í brennidepli í öllu leikskólastarfinu og að lögð sé áhersla á að hvert barn sé einstakt. Að starfsfólk virði þarfir og sérstöðu hvers og eins óháð getu, reynslu og þroska. Leikurinn ernámsleið barna og í gegnum hann eflist þroski þeirra og geta. Virðing og Ábyrgð erui þau leiðarljós/gildi sem vísa veginn í öllu starfi leikskólans. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum er undirstaða velgengni bæði í leik og starfi. Að vera ábyrgur táknar að aðrir geta treyst á þig. Það felur líka í sér að gera eitthvað vel og eftir bestu getu. Unnið er með þessi gildi/leiðarljós á fjölbreyttan hátt í leikskólastarfinu. Hlutverk kennara er að vera góðar fyrirmyndir, hjálpa börnunum að taka ákvarðanir og standa við val sitt. Að kenna þeim að leysa ágreining á jákvæðan hátt, auka sjálfstraust og efla sjálfsmynd, kenna góð samskipti. Við leggjum áherslu á að rækta með nemendum umburðarlyndi, víðsýni og ábyrgð ásamt virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Með því teljum við að sé lagður grundvöllur að sjálfstæðri hugsun og hæfni til samstarfs við aðra. Við viljum að börnin verði jákvæðir og sjálfstæðir einstaklingar með sterka sjálfsmynd og góða samskiptahæfni. Einstaklingar sem eru fordómalausir og með gagnrýna hugsun, skapandi og eigi auðvelt með að tjá sig. Að þau verði einstaklingar sem taki ábyrgð á eigin lífi og beri virðingu fyrir öðrum og sýni samhjálp og samkennd.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er einnig okkar leiðarljós í öllu leikskólastarfi. Öll börn eiga mannréttindi sem er mikilvægt að allir þekki. Í Barnasáttmálanum segir: Menntun á að gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishóp(9. grein).
Við notum fjölbreyttar aðferðir við kennslu í leikskólanum þar sem leikurinn gegnir aðalhlutverki. Við reynum að fara fjölbreyttar leiðir og breytum þeim reglulega eftir þörfum barnahópsins í hvert sinn. Starfsfólk vinnur eftir aldursskiptri námsskrá þar sem fram koma helstu markmið og leiðir að þeim fyrir hvern aldur í leikskólanum. Með þessu móti teljum við að við getum tryggt að börnin fái sambærilegt nám þvert á deildir. Einnig getum við með þessu móti byggt upp eðlilegt framhald og stíganda í námi barnanna